Tengslatorg HÍ er samstarfsvettvangur stúdenta og Háskóla Íslands annars vegar og atvinnulífs og stofnana hins vegar og var sett á stofn 2016 til að leggja HÍ lið við að vera í virkri þátttöku í samfélagi og atvinnulífi.
Eins og nafnið gefur til kynna gefur Tengslatorg HÍ þessum aðilum tækifæri til að mynda tengsl og finna samstarfsfleti út frá starfstækifærum, sértækum verkefnum og starfsþróunarmöguleikum.
Tengslatorg HÍ er hægt að skilgreina sem verkfæri og ákveðna nálgun til að efla starfshæfni stúdenta HÍ og auðga samtalið á milli þeirra og atvinnulífsins.
Í nýrri stefnu HI 26 sem ber yfirskriftina „Betri háskóli – betra samfélag“ fær Tengslatorg aukið vægi í áherslum skólans. Lögð er ahersla á að vera í samstarfi þvert á einingar skólans og í frjóu samtali og samstarfi við samfélag, atvinnulíf og háskóla um heim allan.
Undirliggjandi markmið er að efla aðgengi að símenntun og leggja áherslu á hæfni nemenda til að takast á við fjölbreytt störf og áskoranir í kvikum og tæknivæddum heimi.
Jónína Ó. Kárdal náms- og starfsráðgjafi við Nemendaráðgjöf HÍ og verkefnisstjóri Tengslatorgs HÍ hefur leitt þróun þess frá upphafi.
Starfsþjálfun
Háskóli Íslands er að stórefla samstarf við atvinnulíf og vinnumarkað með framboði á starfsþjálfun í grunn- og framhaldsnámi.
Starfsþjálfun tengir saman nemendur annars vegar og fyrirtæki og stofnanir hins vegar með sameiginlegan ávinning allra aðila að leiðarljósi. Framboð á starfsþjálfun er auk þess ein leið fyrir atvinnulífið til að auðga starfsemi sína og vera virkur þátttakandi í að móta framtíðarmannauð landsins.
Þau sem hafa áhuga á að fá nánari upplýsingar um fyrirkomulag starfsþjálfunar við Háskóla Íslands geta haft samband í gegnum netfangið starfsthjalfun@hi.is.